Að sögn Þorleifs Ágústssonar, framkvæmdastjóra gæludýrafóðurverksmiðjunnar Murr á Súðavík, eru væntingar um að jafnvægi verði komið í rekstur fyrirtækisins í lok árs en fyrstu vörur Murr fóru á markað 10. júní sl. og hefur verið jöfn söluaukning síðan. Í þessari viku eru tvær nýjar vörulínur að koma á markað frá félaginu.

Annars vegar er um að ræða fóður fyrir smáhunda úr vörulínunni Urr og kemur hún á markað í þessari viku. ,,Við vonumst til þess að það slái í gegn. Allavega er það þannig að þeir sem hafa prófað þetta hafa verið gríðarlega ánægðir," sagði Þorleifur. Síðan er verið að koma með gæludýrafóður sem eingöngu er framleitt úr íslensku lambi. ,,Við erum að hugsa það fyrir markað í Evrópu og jafnvel Bandaríkjunum. Við höfum átt fundi með bandarískum aðilum sem haf sýnt þessu áhuga. Það er dýr markaður að fara inná en það er næsta skref að koma inn á markað þar."

Stór markaður fyrir smáhunda

Eins og áður sagði þá er Urr varan fyrir hundamarkaðinn og að sögn Þorleifs lítur það mjög vel út enda gríðarlegt magn af smáhundum í landinu og engin verið að þróa vöru sérstaklega fyrir þá hingað til. Þannig hefur mest verið um innflutt þurrfóður fyrir þá.

Hjá Murr starfa fimm í fullri vinnu sem er nokkuð hátt í 200 manna bæjarfélagi. Að sögn Þorleifs hafa viðtökur verið mjög góðar. Eins og áður sagði þá gerir Þorleifur að jafnvægi verði náð í rekstri félagsins fyrir lok þess árs. Það fer að sjálfsögðu eftir viðtökum á þessum nýju línum og hvernig sala kemur út næstu mánuði. ,,Miðað við hvernig Murr kattamaturinn hefur þróast þá hef ég trú á að Urr muni ganga vel enda erum við með gott hráefni.

Það sem við bíðum spenntir eftir hér eru öll þau loforð sem hafa verið gefin um lækkun á flutningskostnaði í ljósi þess að hér er orðið bundið slitlag alla leiðina vestur. Það er vonandi að menn standi við þau loforð," sagði Þorleifur.

Nánar verður fjallað um félagið í næsta Viðskiptablaði.