Atorka Group gerir tvö árshlutauppgjör fyrir tímabilið 1/1-31/3 2006. Bæði uppgjörin eru gerð í samræmi við alþjóðlegan reikningsskilastaðal IAS 34. Annars vegar er félagið gert upp sem móðurfélag og er það í samræmi við uppgjör félagsins eins og menn hafa átt að venjast til þessa. Hins vegar er félagið gert upp sem rekstrarfélag í gegnum samstæðureikning.

Í móðurfélagsreikningi eru allar fjárfestingar, þar með taldar fjárfestingar í dótturfélögum metnar á gangvirði (e. fair value). Breytingar á gangvirði á tímabilinu eru færðar í rekstrarreikning, þar með taldar gangvirðisbreytingar og arðstekjur frá dótturfélögum. Hins vegar er ekki tekið tillit til afkomu rekstrar hvers og eins dótturfélags á tímabilinu. Í tilkynningu félagsins til Kauphallarinnar kemur fram að nauðsynlegt er að lesa uppgjörin í samhengi til að fá fullan skilning á rekstrarárangri og fjárhagslegri stöðu samstæðunnar og móðurfélagsins.

Í samstæðureikningi er beitt hlutdeildaraðferð og samstæðureikningsskilum þar sem rekstrarleg afkoma hvers og eins dótturfélags ásamt afkomu móðurfélags, án gangvirðismat á dótturfélögum, er lögð saman og myndar hagnað tímabilsins.