Stjórnendur smáskilaboðafyrirtækisins Twitter ætluðu að flytja höfuðstöðvar sínar út fyrir borgina San Francisco í Bandaríkjunum en hættu við þegar þeim var gefinn afsláttur á starfsmannaskatti til næstu sex ára.

Í Wall Street Journal kemur fram að borgarstjórnin hefði fyrr í mánuðinum gefið út tilskipun að Twitter og fleiri fyrirtæki þyrftu ekki að greiða 1,5% skatt af launagreiðslum. Skattlagningin hafði gert það að ráðgert var að flytja starfsstöðvar fyrirtækisins suður út fyrir borgarmörkin.

Nú mun Twitter hins vegar flytja í annan borgarhluta sem verið er að byggja upp. Tölvufyrirtæki, listahús og félagasamtök hafa þar aðstöðu og fá samskonar skattaafslátt. Mun Twitter flytja í hverfi á miðju ári 2012. Verið er að ráða nýja starfsmenn til fyrirtækisins. Nú þegar vinna 450 starfsmenn hjá Twitter.