Twitter hefur skilað árshlutauppgjöri fyrir fjórða ársfjórðung og þrátt fyrir að hafa skilað tapi á tímabilinu voru afkomutölurnar nokkru betri en vænst hafði verið. BBC News greinir frá.

Tap fyrirtækisins á tímabilinu nam 125 milljónum dala og hægði auk þess nokkuð á notendavexti samfélagsmiðlinum en notendunum fjölgaði aðeins um fjórar milljónir milli ársfjórðunga. Til samanburðar fjölgaði þeim um 13 milljónir milli ársfjórðungana á undan og um 16 milljónir þar á undan. Notendur miðilsins eru nú 288 milljónir í heildina.

Þrátt fyrir þetta jukust tekjur fyrirtækisins þónokkuð á milli ára og voru nú 95% hærri en á sama tíma í fyrra. Námu þær nú 479 milljónum dala og munar þar mest um auknar auglýsingatekjur.

Gengi hlutabréfa í fyrirtækinu hækkaði um 9% eftir kynningu uppgjörsins, en það hafði lækkað um 15% frá því að uppgjör þriðja ársfjórðungs var gert opinbert.