Hægt hefur á vexti samskiptasíðunnar Twitter í Bandaríkjunum og leita forsvarsmenn fyrirtækisins nú fleiri notenda í öðrum ríkjum, eins og í ríkjum Asíu, Suður-Ameríku og Mið-Austurlöndum. Í fyrra fjölgaði notendum í Bandaríkjunum um 27% og eru þeir nærri 32 milljónir. Spáð er að þeim muni fjölga um 14% á þessu ári.

Til þess að stækka notendahópinn hefur Twitter gert samninga við um 250 símfyrirtæki, meðal annars á Indlandi, Mexíkó, í Brasilíu og á Fillipseyjum. Bloomberg fjallar um sókn Twitter á nýja markaði og bendir meðal annars á að tyrknesk poppstjarna, Murat Boz að nafni, á nú nærri tvær milljónir fylgjenda á Twitter. Það þykir vera til marks um auknar vinsældir Twitter þar í landi.

Ráðist hefur verið í nokkrar breytingar á viðmóti Twitter fyrir mörg þau ríki sem reynt er að höfða til. Hugbúnaðurinn hefur verið einfaldaður og betur sniðinn að þörfum íbúa. Stefnt er að hlutafjárútboði Twitter og gera markmið félagsins ráð fyrir að tekjur verði orðnar ein milljón dollara árið 2014.