Unnið er að skráningu skilaboðaskjóðunnar Twitter á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum á árinu. Talið er að markaðsverðmæti fyrirtækisins geti numið allt að 11 milljörðum dala, jafnvirði rúmra 1.400 milljarða íslenskra króna. Þetta er álíka mikið og landsframleiðsla hér á landi árið 2010 en þá nam hún 1.630 milljörðum króna.

Fram kemur í umfjöllun breska dagblaðsins Guardian af málinu að verðmatið byggist á viðskiptum með hlutabréf í fyrirtækinu manna og fyrirtækja á milli. Blaðið bendir á að í fyrra hafi verðmat á Twitter farið úr 8 milljörðum dala í 10 á tiltölulega stuttum tíma. Fremur afleitir dagar Facebook og Zynga á markaði hafi hins vegar haft neikvæð áhrif á Twitter, að sögn Guardian.

Í Guardian er bent á að í greiningu fjármálafyrirtækisins Greencrest á Twitter komi m.a. fram að orðrómur sé á kreiki um að Apple hafi áhuga á því að kaupa félagið með manni og mús. Það hafi þrýst áætluðu verði upp.