Notkun starfsmann á síðum á borð við Twitter og Facebook kosta bresk fyrirtæki um tæpa 1,4 milljarð Sterlingspunda ár hver samkvæmt nýrri skýrslu tæknifyrirtækisins Morse.

Frá þessu er greint á vef BBC en þar segir að yfir helmingur þeirra sem spurðir voru í könnun Morse viðurkenna notkun á fyrrnefndum síðum til persónulegra nota en niðurstöður könnunarinnar leiða í ljós að hver starfsmaður ver allt að 40 mínútum á dag í að vafra og/eða nota slíkar síður.

„Vinsældir samfélagsvefja á borð við Twitter og Facebook hafa aukist verulega síðustu tvö ár og það er orðið mjög freistandi að skoða slíkar síður á vinnutíma,“ segir Philip Wicks, starfsmaður Morse í samtali við BBC.

„Það er nokkuð ljóst að þegar slíkar síður eru notaðar á vinnutíma myndast svokölluð svört hola, þ.e. dauður tími sem ekki nýtist í vinnu.“

Þá kemur fram að mörg fyrirtæki hafa bannað notkun Facebook á vinnustað en að sögn Morse virðist enn langt í að Twitter verði bannað. Könnun Morse leiddi í ljós að algjör minnihluti aðspurðra hafði nokkurn tíma fengið þau skilaboð frá vinnuveitenda að notkun Twitter væri illa liðin eða bönnuð á vinnustað.