Gengi hlutabréfa bandaríska netfyrirtækisins Twitter rauk upp um allt að átta prósent í dag eftir að frétt birtist um að því hefði borist yfirtökutilboð upp á 31 milljarð bandaríkjadollara.

Í ljós kom að um falsaða frétt var að ræða. Hún átti að vera frá vefsíðu Bloomberg, Bloomberg.com, en var í raun af falsaðri vefsíðu, Bloomberg.market. Talsmenn Bloomberg hafa staðfest að um fölsun hafi verið að ræða og féll hlutabréfaverð Twittre niður aftur í um 37 dollara á hlut en þar hafði það verið fyrir falsaða fréttaflutninginn.

Sögusagnir hafa verið uppi um að Twitter verði selt innan tíðar síðan að fyrrum forstjóri fyrirtækisins, Dick Costolo, sagði af sér í síðasta mánuði.