Samskiptamiðillinn Twitter skilaði í fyrsta skipti hagnaði, eftir að félagið var skráð á markað, á fjórða ársfjórðungi ársins 2017 að því er The Wall Street Journal greinir frá.

Er það talinn mikill léttir fyrir fyrirtækið sem hefur átt erfitt með að láta viðskiptalíkanið ganga upp. Fyrir síðasta ársfjórðung hafði félagið skilað tapi á hverjum einasta fjórðungi síðan það var skráð á markað í nóvember 2013. Það hafði þó sett sér markmið um að skila hagnaði á árinu 2017.

Félagið hefur rokið upp á hlutabréfamörkuðum síðan það tilkynnti um afkomu fjórða ársfjórðungs en þegar þetta er skrifað hefur gengi bréfa Twitter hækkað um 22,7% á einum sólarhring.

Hagnaður félagsins nam 91,1 milljón dala eða sem nemur um 9,4 milljörðum króna á gengi dagsins í dag.