*

laugardagur, 29. janúar 2022
Erlent 9. júlí 2020 12:10

Twitter stefnir á áskriftarþjónustu

Hlutabréf Twitter hafa hækkað um meira en 7% í dag vegna frétta um að félagið hyggist byrja með nýja áskriftarþjónustu.

Ritstjórn
Jack Dorsey, forstjóri Twitter
epa

Samfélagsmiðillinn Twitter er með nýja áskriftarþjónustu í kortunum en félagið stendur undir mikilli pressu að bæta hagnað. Hlutabréf Twitter hafa hækkað um meira en 7% í dag í kjölfar fréttanna. 

Fyrirtækið sagði í auglýsingu eftir hugbúnaðarverkfræðingi að það væri að „byggja áskriftarvettvang“ og væru í leit að einhverjum til að leiða greiðslu og áskriftarþjónustu. „Þetta er nýjung hjá Twitter!“, segir í starfsauglýsingunni.

Jack Dorsey, forstjóri Twitter, er undir mikilli pressu að bæta rekstrarframmistöðu félagsins. Hann á í átökum við fjárfestahópinn Elliott Management sem hefur til að mynda óskað eftir að nýjum forstjóra hjá samfélagsmiðlinum. 

Félagið er að kanna ýmsar mögulegar tekjulindir en enginn ákvörðun hefur verið tekin í þeim efnum, hefur WSJ eftir aðila sem þekkir til áforma Twitter.

Vöxtur notendafjölda samfélagsmiðilsins hefur ekki verið meiri frá því að félagið var skráð á markað. Mikill notendafjöldi hefur þó ekki leitt til mikils fjárhagslegs ávinnings en félagið skilaði tapi á fyrsta ársfjórðungi ársins.  

Stikkorð: Twitter Jack Dorsey