Gengi hlutabréfa Twitter féll um 18% þegar verst lét á hlutabréfamarkaði í Bandaríkjunum í gærkvöldi eftir birtingu uppgjörstalna.Þetta var fyrsta uppgjör fyrirtækisins síðan hlutabréf Twitter voru skráð á markað í nóvember í fyrra.

Gengi hlutabréfa Twitter stóð í 42 dölum á hlut á fyrsta viðskiptadegi í nóvember. Nú stendur það í 66 dölum á hlut.

Taprekstur fyrirtækisins á fjórða ársfjórðungi í fyrra nam 511 milljónum dala, jafnvirði næstum 60 milljörðum íslenskra króna. Þetta er margfalt meira tap en á sama tíma árið 2012 þegar tapið nam „aðeins 8,7 milljónum dala. Ef kaupréttir og hlunnindi eru dregin frá nam hagnaður Twitter 9,7 milljónum dala á fjórða ársfjórðungi borið saman við 271 þúsund dala tap fyrir rúmu ári.

Tekjur Twitter námu 243 milljónum dala á fjórðungnum samanborið við 112 milljónir á fjórða ársfjórðungi árið 2012. Þá fjölgaði notendur nokkuð á milli ára, fór úr 232 milljónum í enda september í 241 milljón notendur undir lok desember.

Bandaríska dagblaðið New York Times fjallar ítarlega um málið.