Hugmyndir eru uppi um að varðskipið Tý verði breytt í safn á Ólafsfirði, þar sem óvissa er um hvort skipið komst í rekstur á ný í kjölfar bilana um borð. H-listinn í Fjallabyggð telur að nú þurfi að „hamra járnið á meðan það er heitt, því reikna má með að fleiri séu að spá í svipaða hluti“, að því er segir í erindi hans til bæjarráðs Fjallabyggð.

Morgunblaðið greindi frá því í byrjun mánaðarins að óvíst væri hvort Landhelgisgæslan hefði fjármuni til að standa straum af óvæntum kostnaði við lagfæringu á varðskipinu, sem gæti hlaupið á tugum milljóna króna.

H-listinn í Fjallabyggð sér fyrir sér að Týr gæti átt heima í Ólafsfjarðarhöfn við austurkantinn í gömlu höfninni. Þar yrði hann gerður að sýningargrip og sögu hans gerð góð skil, sem m.a. inniheldur fræknar aðgerðir í þorskastríðinu. Töluvert myndefni sé til hjá RÚV sem væri auðvelt að koma fyrir í skipinu.

Lagði H-listinn til að bæjarstjóra yrði falið að senda formlegt erindi til Landhelgisgæslunnar, dómsmála-, menntamála- og forsætisráðherra vegna málsins. Fram kemur þó að hugmyndin verði ekki framkvæmanleg nema með fjármunum frá hinu opinbera sem væri forsenda fyrir verkefninu.

Meirihluti bæjarráðs hafnaði málaleitan H-listans um að bæjarstjóra yrði falið að hafa formlegt frumkvæði að því að leita annars vegar eftir því að varðskipinu Tý verði fundinn framtíðar legustaður í Ólafsfjarðarhöfn og skipið gert að safni og hins vegar að sækjast eftir fjárhagslegum stuðningi ríkissjóðs til undirbúnings og framtíðarrekstrar umrædds safns og skips.

Komi hins vegar útfærð og fjármögnuð hugmynd um varðveislu skipsins og uppsetningu safns í Ólafsfjarðarhöfn, þá yrði horft til þess að styrkja verkefnið með fjárhæð sem nemur viðlegugjöldum.

„Um leið og hugmynd H-listans er góðra gjalda verð þá eru á málinu þessháttar meinbugir að ekki er nokkur leið fyrir meirihluta bæjarráðs að samþykkja erindið. Meirihlutanum er t.d. algjörlega hulið hvernig H-listinn hefur hugsað sér framhaldið ef svo vill til að skip og nægjanlegt fjármagn fengist frá ríkisvaldinu. Hvergi í erindi H-listans er þess getið hver hugsanlega muni hafa forgöngu um verkefnið né er í erindinu leitast við að varpa ljósi á það hvort mögulega einhver, félagasamtök eða einkaaðilar, sjái sér hag í rekstri skips og safns,“ segir í fundargerð bæjarráðsins.

„Því er erfitt að ráða annað af erindinu en H-listinn horfi til þess að sveitarfélagið muni með beinum hætti koma að aðstöðusköpun og framtíðarrekstri skipsins sem og safnsins sem H-listinn sér fyrir sér að í skipinu verði. Þessháttar opnar ávísanir getur meirihluti bæjarráðs ekki tekið þátt í að samþykkja.“