Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins leiðir rúmlega 200 milljóna króna hlutafjáraukningu íslenskra og bandarískra aðila í sprotafyrirtækinu Tyme Wear. Hlutafjáraukningin mun nýtast Tyme Wear við framþróun og markaðssetningu á vöru sinni á árinu.

Tyme Wear þróar búnað fyrir íþróttafólk sem mælir árangur af æfingum. Lausnin byggir á snjallfatnaði sem íþróttafólk klæðist og mælir þrekþröskulda líkamans út frá öndun viðkomandi. Mjúkir nemar eru felldir inn í snjallfatnað, algrím greina gögnin sem í framhaldinu eru gerð aðgengileg í gegnum notendaviðmót í síma eða tölvu.

Stórstjörnur og stórlið prófa tæknina

Tyme Wear hefur sannreynt nákvæmni tækninnar á afreksrannsóknarstofu Harvard háskóla í Bandaríkjunum og með aðstoð frá alþjóðlegu afreksíþróttafólki á heimsmælikvarða. Meðal þeirra eru liðsmenn Team USA í þríþraut, landslið Kanada í frjálsum íþróttum og íslenskt afreksíþróttafólk, svo sem hlaupararnir Aníta Hinriksdóttir og Arnar Pétursson, þríþrautarmaðurinn Sigurður Ragnarsson, meistaraflokkur KR í fótbolta og frjálsíþróttalið ÍR.

Aukinn fjöldi íþróttamanna miðar þjálfun sína að því að finna leiðir til að stýra álaginu á æfingum til að ná auknum framförum og forðast á sama tíma meiðsli eða ofþjálfun. Um 60% þeirra sem styðjast við lausnir sem byggja á hjartsláttarmælingum ná litlum sem engum framförum. Ástæðan er að viðmiðin eru of almenn þannig að ekki næst að stilla æfingaálagið rétt miðað við raunverulega líkamlega getu.

Lausn Tyme Wear snýst um að mæla líkamlegt atgervi til að auðvelda einstaklingsmiðaðar ráðleggingar um æfingar og æfingaálag. Þá veitir kerfið sjálfvirka endurgjöf sem auðveldar notandanum að greina æfingarnar sínar og bera framfarir saman við sett markmið.

Framundan er að ljúka við þróun vörunnar. Prófanir halda áfram í sumar og hún kynnt nánar í haust. Markaðssetning og sala á áskriftarmarkað í Evrópu hefst á næsta ári og verður stýrt frá Íslandi.

Friðrik Friðriksson , fjármálastjóri Nýsköpunarsjóðs:

„Tyme Wear er spennandi fyrirtæki sem við höfum trú á. Það er ánægjulegt að sjá íslenskt hugvit nýtt til að bæta þjálfun og frammistöðu íþróttamanna í heimi þar sem framfarir og tækninýjungar skipta æ meira máli í þeirri þróun. Það er gaman að sjá nýja tækniþekkingu þróast með þessum hætti og ljóst að tæknin býður upp á mörg tækifæri tengd fjarþjálfun sem á klárlega eftir að vaxa mikið.“

Arnar Lárusson , stofnandi og framkvæmdastjóri Tyme Wear:

„Þessi fjárfesting gefur okkur færi á að klára að þróa lausnina, koma henni á markað og hjálpa íþróttafólki við rétta nálgun á æfingar. Helstu hættur við ranga æfingaáætlun eru annað hvort meiðsli vegna of mikils álags eða litlar raunverulegar framfarir vegna of lítils álags og lítils hvata. Það er mikil viðurkenning fyrir okkur að fá Nýsköpunarsjóð að fjármögnun félagins og aðkoma sjóðsins hefur stuðlað að því að því að við gátum dregið fleiri sterka aðila að félaginu.“

Stofnandinn sjálfur með reynslu af ofþjálfun

Hugmyndin að baki stofnun Tyme Wear verður til úr reynsluheimi Arnars Lárussonar frumkvöðuls. Arnar spilaði körfubolta og varð margfaldur Íslands- og Reykjavíkurmeistari með liði sínu. Hann spilaði með meistaraflokki aðeins 16 ára gamall og var í unglingalandsliðinu um árabil. Reynsla Arnars af ofþjálfun og endurteknum meiðslum aðeins 18 ára gamall vakti áhuga hans á að finna betri leiðir til að þjálfa líkamann.

Að lokinni útskrift sem verkfræðingur frá Háskóla Íslands og eftir störf bæði hjá Össuri hf. og Harvard háskóla hafði Arnar öðlast dýrmæta þekkingu og reynslu af mælingum og hönnun á mjúkum teygjanlegum snjallefnum og hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín. Árið 2014 ákvað Arnar ásamt nokkrum félögum sínum að stofna Tyme Wear og hnýta þar þekkingu sína og reynslu saman við áhugamálið og þróa tæknibúnað sem stuðlaði að betri þjálfun íþróttamanna.