Þýskur viðskiptamaður tapaði, eða öllu heldur týndi um 10 þúsund evrum í plastpoka þegar hann stoppaði á bensínstöð í Þýskalandi til að kasta af sér vatni.

Maðurinn, sem átti leið eftir hraðbraut í Þýskalandi, stoppaði á bensínstöð og tók pokann með sér á klósettið. Eitthvað hefur hann verið utan við sig því að vildi ekki betur til en svo að hann gleymdi pokanum.

Að sögn Reuters fréttastofunnar keyrði hann í burtu og það var ekki fyrr en um hálftíma síðar sem hann áttaði sig á því að hann hefði gleymt pokanum. Haft var eftir lögreglumanni í Hesse í Þýskalandi að það sætti furðu af hverju það hefði tekið manninn hálftíma að átta sig á því að hann hefði gleymt pokanum með öllum þessum peningum – sem að sjálfsögðu var horfinn þegar hann kom til baka.