Íslandsbanki hefur höfðað mál til að ógilda lánasamning sem bankinn fékk í arf frá Byr sparisjóði. Um er að ræða lán sem upphaflega var 14,5 milljónir króna og gefið var út í júní 2007. Ástæða ógildingarmálsins er óvenjuleg, því frumrit samningsins, sem var í vörslu útibús Íslandsbanka við Kirkjusand, er týnt og finnst ekki þrátt fyrir ítarlega leit.

Samkvæmt upplýsingum frá bankanum er um algera undantekningu að ræða því nánast óþekkt sé að bankinn týni lánasamningum sem þessu. Málshöfðun sé leiðin sem farin er við slíkar aðstæður. Nauðsynlegt sé að fá dóm fyrir því að frumrit samningsins hafi verið til staðar og að heimilt sé að innheimta skuldina samkvæmt ógildingardómi, sem er þá ígildi frumrits skuldaskjals.