Tyrkneska líran veikist verulega í gær í kjölfar lækkunar á gengi íslensku krónunnar. Íslenska krónana veiktist um rúmlega 4% eftir að bandaríski fjárfestingabankinn Merrill Lynch gagnrýndi íslenska bankakerfið í skýrslu, sem var birt á þriðjudaginn.

Lægst fór tyrkneska líran í 1.3555 á móti Bandaríkjadal, sem er lægsta gildi gjaldmiðilsins á þessu ári. Líran jafnaði sig þegar líða tók á daginn og stóð í 1,3495, en var 4% lægri en í síðustu viku þegar hún náði hæsta gildi sínu á árinu.

Ekki eru þó allir sammála að Merrill-skýrslan og lækkun á gengi íslensku krónunnar hafi haft áhrif á lækkun tyrknesku lírunnar. Aziz McMahon, sérfræðingur hjá hollenska bankanum ABN Amro í Tyrklandi, telur að lækkunina megi að mestum hluta rekja til óvissu um hver tekur við stöðu seðlabankastjóra Tyrklands.

Sterk líra í byrjun árs var líka alltaf líkleg til þess að falla verulega, segja sérfræðingar, en erlendir aðilar hafa verið að taka stöður í tyrknesku lírunni á móti lánum í óvenjulega veikum gjaldmiðlum í löndum þar sem vaxtastig er lágt. Það sama hefur verið að gerast á Íslandi og því ekki ólíklegt að krónan taki dýfur við neikvæðar fréttir.

Tyrkneski seðlabankinn keypti Bandaríkjadali á miðvikudag á genginu 1,3900, sem var í miklu ójafnvægi við markaðsgengið, og telur Simon Quijano-Evans, sérfræðingur hjá Bank Austria, að kaupin hafi leitt til falls lírunnar.

Aðrir áhættugjaldmiðlar, svo sem pólska zlotið og ungverska og tékkneska korunan, gáfu einnig eftir í gær.