Tyrkneskt borskip hefur uppgötvað stóra jarðgaslind í Svartahafinu. Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti sagði blaðamönnum að ríkisrekið olíufyrirtækið hafi fundið 320 milljarða rúmmetra af jarðgasi, og jafnframt stærsti fundur í sögu Tyrklands. Hann vonast til að framleiðsla hefjist árið 2023. Financial Times segir frá .

„Sem land, sem hefur upplifað vandamál í nokkur ár sökum þess að við höfum þurft að treysta á erlendar orkulindir, þá trúi ég að núna getum við horft til framtíðar með fullri trú,“ sagði Erdogan í fyrr í dag.

Hann bætti einnig við að höfuðborgin Ankara myndi flýta leit sinni að jarðgasi í austur-Miðjarðarhafi en hana greinir á við Grikkland og Kýpur um skiptingu á jarðefnaeldsneyti.

Greiningaraðilar tóku tilkynningunni með varkárni en sögðu umfang auðlindarinnar vera þýðingarmikla ef hún reynist markaðsvænleg.

„Þetta er mat sem byggir á uppgötvun sem þarf að staðfesta með frekari borun reynsluhola,“ er haft eftir Ashley Sherman hjá Wood Mackenzie.

„En þetta er engu að síður langstærsta uppgötvun Tyrklands og sú stærsta í Svartahafinu. Þetta gæti haft risaáhrif á orkubirgðir Tyrklands og umræðuna í kringum djúpsjávarmöguleika í Svartahafinu,“ bætir hann við.

Sjá einnig: Tyrkneska líran í sögulegri lægð

Jonathan Lamb hjá Wood & Company sagði mjög bjartsýnt að hægt verði að hefja framleiðslu innan þriggja ára, þar sem orkuinnviðir við Svartahafið væru veikir.

„Ég giska á að fimm ár séu það besta sem þú getur vonast eftir,“ segir Lamb. „Þeir gætu náð að laða að alþjóðlegan olíurisa sem hafa í raun markaðinn fyrir sölu á jarðgasi í haldi. Tónninn í Tyrkjunum vegna uppgötvunarinnar er hins vegar mjög þjóðernissinnaður og mig grunar að þeir reyni sjálfir að framleiða og selja.“

Innflutningur á orku er einn stærsti liður í viðskiptahalla Tyrklands. Á síðasta ári nam orkuinnflutningur Tyrklands 41 milljarði dollara eða um 5.684 milljörðum króna. Helstu seljendur eru Rússland, Íran og Azerbaijan ásamt Qatar og Bandaríkjunum.

Berat Albayrak, fjármálaráðherra Tyrklands og tengdasonur Erdogan, sagði að jarðgaslindin gæti gert Tyrklandi kleift að útrýma núverandi viðskiptahalla.