Tyrknesk stjórnvöld hafa ákveðið hækkað verðbólgumarkmið seðlabanka landsins. Ákvörðunin er tekinn í kjölfar þess að vaxandi undirliggjandi verðbólguþrýstings gerði bankanum örðugt að núverandi verðbólgumarkmiði, sem miðast við fjögur prósent.

Samkvæmt samkomulagi ríkisstjórnar Réttlætis- og þróunarflokksins og seðlabanka landsins mun verðbólgumarkmið næsta árs vera 7,5% og svo mun það lækka um samtals 200 punkta á næstu tveimur árum eftir það.

Hækkanir á orku- og matvælaverði hafa leitt til þess að verðbólga mælist nú yfir tíu prósentum og hefur seðlabanki landsins ekki tekist að koma á hana böndum.

Fyrir nokkru voru stýrivextir hækkaðir um 50 punkta, eða upp í  15,75%, og var það fyrsta hækkunin í tvö ár. Segja má að með hækkun verðbólgumarkmiðanna séu stjórnvöld að játa sig sigruð, að minnsta að sinni, gagnvart þeim undirliggjandi öflum sem hafa leyst verðbólgu úr böndunum að undanförnu – það er að segja síhækkandi heimsmarkaðsverði á olíu og annarri hrávöru.

Í kjölfar ákvörðunarinnar lækkaði gengi tyrknesku lírunnar gagnvart Bandaríkjadal um 0,9%.

Skiptar skoðanir eru meðal sérfræðinga um ákvörðunina. Bloomberg-fréttaveitan hefur eftir Simon Evans, sérfræðingi hjá UniCredit í Vín, að hugsanlega muni aðrir seðlabankar fylgja í kjölfarið. Hann segir að þrátt fyrir að ákvörðun tyrkneskra stjórnvalda dragi úr trúverðugleika peningamálastefnunnar þá sé verið að bregðast við þeirri staðreynd að upphaflega verðbólgumarkmiðið var óraunhæft til að byrja með.

Bloomberg hefur jafnframt eftir Christian Keller, hagfræðingi hjá Barcleys og fyrrum yfirmanni skrifstofu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Tyrklandi, að hugsanlega hafi stjórnvöld brugðist við með of snöggum hætti. Seðlabankinn gæti þurft að hækka vexti enn frekar til þess að viðhalda trausti fjárfesta.

Sem kunnugt er hefur ríkt mikið hagvaxtarskeið í Tyrklandi á meðan að Réttlætis- og þróunarflokkurinn hefur verið við völd. Á þessum tíma hefur tekist að koma böndum á óðaverðbólgu, draga úr skuldsetningu ríkisins og á sama tíma hefur erlend fjárfesting aukist feykilega.

Þrátt fyrir að verðbólgumarkmiðið hafi verið hækkað þá ítrekuðu yfirvöld baráttuvilja sinn gegn verðbólgunni.

Seðlabankastjóri landsins, Durmus Yilmaz, hefur lýst því yfir að frekari stýrivaxtahækkunum verði beitt ef þurfa þykir. Jafnframt hefur ríkisstjórn landsins lýst því yfir aðhalds verði gætt í ríkisfjármálum.

Efnahagsráðherra landsins, Mehmet Simsek, hefur einnig lýst sig reiðubúinn til þess að „beita varúðarráðstöfunum” í bankakerfinu til þess að koma verðbólgu niður. Ekki hefur verið skýrt hvað við því var átt.