Gengi tyrknesku lírunnar gagnvart bandaríska dollaranum náði sögulegri lægð á föstudaginn síðasta, þrátt fyrir að Seðlabanki Tyrklands hafi keypt lírur fyrir 65 milljarða dollara í júní og júlí til að vernda gjaldmiðilinn, samkvæmt mati Goldman Sachs. Financial Times segir frá .

Gengið hefur lækkað um meira en 20% á árinu en Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti lýsti þessu sem skammvinnri sveiflu í síðustu viku. Berat Albayrak, fjármálaráðherra Tyrklands og tengdasonur Erdogan, sagði að gengisfall lírunnar hafi gert ferðamannaiðnað og útflutning landsins samkeppnishæfari og að hann hefði ekki áhyggjur af genginu.

Seðlabanki Tyrklands hefur ekki viljað hækka stýrivexti til að koma í veg fyrir frekara gengisfall lírunnar en Peningastefnunefnd Seðlabankans mun þó fjalla um málið á næsta fundi nefndarinnar eftir viku. Seðlabankinn hefur hækkað lántökukostnað viðskiptabanka að undanförnu sem sumir greiningaraðilar telja gert til að ýta undir gengi gjaldmiðilsins.

Erdogan kallaði eftir því fyrr í vikunni að vextir yrðu lækkaðir frekar en hann er þeirrar skoðunar að háir vextir örvi verðbólgu.