Algengt er að leikmenn, sem hafa þegar sannað sig í íslensku deildinni, séu seldir fyrir 20-40 milljónir króna þegar þeir fara í atvinnumennsku, samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins. Upphæðirnar eru þá oft greiddar í nokkrum greiðslum sem á stundum tengjast því hvernig leikmanninum gengur að fóta sig sem aðalliðsleikmanni hjá nýja félaginu.

Þegar íslenskir leikmenn fara út á táningsaldri, áður en þeir hafa fest sig í sessi sem aðalliðsleikmenn, þá er kaupverðið oftast lægra. Í slíkum sölum er þó nánast undantekningarlaust sett ákvæði sem tryggir uppeldisfélögunum hlutdeild í framtíðarsölu á leikmanninum. Gott dæmi um hverju slíkt ákvæði getur skilað er salan á Gylfa Sigurðssyni frá Reading til Hoffenheim í lok ágúst 2010.

Verðmiðinn á Gylfa er talinn hafa verið 6,75 milljónir punda, eða tæplega 1,3 milljarður króna. Breiðablik fékk hlutfall af því söluverði. Samkvæmt fréttum í íslenskum dagblöðum síðasta haust nam sú greiðsla um 10% af kaupverðinu. FH, sem Gylfi spilaði með áður en hann fór til Breiðabliks, vildi fá rúman þriðjung af þeirri upphæð en við því hefur ekki verið orðið. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins er sú deila enn óleyst.

Umboðsmenn fá 4-5%

Þegar leikmenn eru seldir á milli liða er það oft þannig að umboðsmenn eru milligöngumenn í þeim viðskiptum. Þeir láta félögin vita af leikmönnunum og „selja vöruna“, enda hafa þeir persónulegan hag af því að viðskiptin gangi eftir. Samkvæmt upplýsingum Viðskiptablaðsins tíðkast það að umboðsmenn fái 4-5% hlut af kaupverði í hvert sinn sem leikmannasölur eiga sér stað. Í stórum leikmannasölum er ljóst að þær upphæðir geta hlaupið á tugum milljóna króna. Stundum er það þannig að fleiri en einn umboðsmaður vinna saman að sölu og skipta þeir þá umboðsmannaþóknuninni á milli sín.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér að ofan.