Ryan Graves er fyrsti starfsmaðurinn sem ráðinn var til leigubílafyrirtækisins Uber og er hægri hönd stofnandans Travis Kalanick. Graves fékk starf hjá Uber í gegnum Twitter, þar sem hann svaraði tísti Kalanick og hvatti hann til að ráða sig. Á þeim tíma vissi enginn hvað Uber var en nú er fyrirtækið eitt það allra stærsta í heiminum og metið á 50 milljarða Bandaríkjadala. Graves er yfirmaður alþjóðamála hjá fyrirtækinu og er því yfir rekstri þess alls staðar í heiminum utan Bandaríkjanna.

Graves er einungis 32 ára gamall en er þrátt fyrir það metinn á 1,5 milljarða dollara. Hann var meðal fyrirlesara á nýsköpunarráðstefnunni „How Innovation and Talent attract Capital“ í Háskóla Reykjavíkur í síðustu viku. Viðskiptablaðið ræddi við hann eftir ráðstefnuna og spurði fyrst hvað þarf að ganga upp til að lítið sprotafyrirtæki geti orðið að stórveldi sem Uber.

Stefnir til Reykjavíkur

„Ég var mjög heppinn að fá að taka þátt í að byggja upp svona fyrirtæki. Mitt ráð er að byrja á að einbeita sér að því að leysa eitthvað vandamál. Þegar við byrjuðum með Uber í San Francisco var mjög erfitt að fá áreiðanlega þjónustu til að komast á milli staða. Við reyndum að finna hina fullkomnu aðferð,“ segir Graves.

Í fyrirlestri sínum lofaði Graves því að Uber kæmi til Íslands einn daginn en hann segist ekki vita hvenær það verður.

„Því miður erum við ekki enn starfræktir í Reykjavík en við vonumst til að það breytist. Við viljum klárlega vera í hverri einustu borg í heimi og við munum halda áfram að stefna að því. Ég veit ekki hversu fljótt við náum því, en þar sem hægt er að bæta samgöngur, þar getur Uber verið lausn, og ef þessi vandi er til staðar í Reykjavík höfum við áhuga á að leysa hann,“ segir Graves.

Nánar er rætt við Ryan Graves í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .