Yfirvöld samgöngumála í London hefur ákveðið að fyrirtækið Uber sem hefur verið mjög vinsæl leigubílaþjónusta sem vinnur í gegnum snjallsímaapp sé ekki hæft til að hafa leigubílaleyfi í borginni. Sagði stofnunin Transport for London sem sér um málaflokkinn að ákvörðunin væri tekin á grundvelli almannaöryggis.

Uber segir hins vegar ákvörðunina sýna að borgin sé langt frá því að vera opin, heldur lokuð fyrir frumkvöðlafyrirtækjum. Í dag nota um 3,5 milljónir viðskiptavina og 40 þúsund bílstjórar Uber appið í London að því er BBC greinir frá.

„TfL og borgarstjórinn hafa látið undan litlum hópi fólks sem vill takmarka valfrelsi neytenda,“ segir fyrirtækið í yfirlýsingu og segir Tom Elvidge framkvæmdastjóri fyrirtækisins í London að ákvörðunin verði kærð.

Segja fyrirtækið ósiðlegt

„Til að verja lífsviðurværi allra bílstjóranna og valfrelsi þeirra milljóna Lundúnabúa sem nota appið, þá munum við leita til dómstóla þegar í stað.“ Borgarstjórinn í London, Sadiq Khan, sem er meðlimur í Verkamannaflokknum, segist standa að fullu á bak við ákvörðun TfL.

„Sérhver leigubílstjóraþjónusta í London verður að fylgja reglunum,“ sagði Khan, en Steve McNamara aðalritari samtaka leigubílstjóra segir ákvörðun borgarstjórans rétta. „Þetta ósiðlega fyrirtæki á ekkert erindi á götur London.“