Snjallsíma forritið Uber sem býður upp á leigubílaþjónustu hefur nú prufukeyrslu á nýrri þjónustu sem býður notendum heimsendingaþjónustu.

Á þriðjudaginn hófst prufukeyrsla á Uber Corner Store í Washington DC. Forritið finnur næsta apótek við notandann og sýnir honum lista af vörum sem eru í boði þar. Síðan hringir Uber bílstjóri í notandann og tekur niður pöntun. Bíilstjórinn fer svo út í apótekið og kaupir vörurnar og keyrir þær svo heim til notandans sem er rukkaður á Uber reikningnum sínum fyrir þjónustuna.

Þetta er nýjasti liður í áætlun Uber um að auka þjónustu sína á öðrum sviðum en akstri. Á síðasta ári prufukeyrði fyrirtækið sendingaþjónustu á blómum, ís og jólatrjám.

Í samtali við CNN money sagði stofnandi Uber, Travis Kalanick, að þjónusta Uber fæli í sér að koma ökumanni og bíl til notanda á fimm mínútum og ef hægt væri að koma bíl til einhvers á fimm mínútum væri möguleiki um að senda honum margt annað á jafn stuttum tíma.

Hins vegar er mikil samkeppni á markaði heimsendingaþjónustu þar sem önnur fyrirtæki meðal annars Amazon bjóða heimsendingu samdægurs.