Uber Technologies Inc., sem á og rekur samnefnt snjallforrit, mun ekki fara á hlutabréfamarkað í senn, ef marka má framkvæmdastjóra fyrirtækisins, Travis Kalanick. „Gefðu okkur nokkur ár, dálítinn tíma, og á réttu augnabliki gæti markaðsskráning átt sér stað," sagði Kalanick í viðtali á ráðstefnu Wall Street Journal í Kaliforníu í gær.

Hann minnti áheyrendur á að fyrirtækið sé aðeins rétt um fimm ára gamalt, og það væri ef til vill of ungt til að fara á ballið með stóru krökkunum. „Uber er ennþá í áttunda bekk. Leyfið okkur að komast í menntaskóla fyrst, áður en við tölum um svona hluti," sagði Kalanick.

Fjárfestingasjóðir á borð við Google Ventures og Baidu Inc. hafa dælt milljörðum dala í fyrirtækið, sem gerir það að verkum að virði fyrirtækisins er metið á meira en fimmtíu milljarða dala.

Markaðshlutfall í Kína um 30%

Kalanick talaði einnig um stöðu Uber í Kína, sem og samkeppnina við fyrirtækið Didi Kuaidi þarlendis. Markaðshlutfall Uber í kínverska skutlmarkaðnum er rúmlega 30-35%, og fimm af þeim tíu borgum sem notfæra sér þjónustu Uber mest eru staðsettar í Kína. Kalanick staðfesti á ráðstefnunni að fyrirtækið áætlaði að eyða rúmum milljarði dala árlega í Kína, og að þegar hefði það fjárfest fyrir hundraðir milljóna.

Didi Kuaidi fjárfesti nýlega í stærsta samkeppnisaðila Uber í Bandaríkjunum, Lyft Inc., og sagðist Kalanick gáttaður á þessari ákvörðun. „Ég skil ekki markmiðið með þessari ákvörðun," sagði Kalanick. „Ég skil ekki hvað Didi græðir á þessu."

Einnig hefur fjárfestir Didi Kuaidi, Tencent Holdings Ltd. gert Uber lífið leitt í Kína, en þau hafa bannað notkun Uber gegnum vinsælt samskiptaforrit sitt, WeChat. „Samkeppni í Kína virkar öðruvísi, og það er bara staðreynd," sagði Kalanick. „Við spilum eftir mismunandi reglum, en það er í góðu lagi."