Bandarískur dómari hefur neitað að samþykkja samkomulag leigubílafyrirtækisins Uber við bílstjóra sína.

Uber hafði samþykkt að greiða 100 milljónir Bandaríkjadala eftir að 385.000 bílstjórar fóru í mál og kröfðust þess að vera skráðir sem starfsmenn en ekki verktakar. Vildu þeir þannig auka við réttindi sín og fríðindi.

Samkomulagið fól í sér að bílstjórarnir yrðu áfram verktakar en hins vegar myndi fyrirtækið greiða áðurnefndar 100 milljónir dala til þeirra. Dómari í San Francisco kom hins vegar í veg fyrir að samkomulagið gæti orðið að veruleika og sagði það „ósanngjarnt og óábyrgt“.

Í yfirlýsingu sagði Uber að ákvörðun dómarans væri mikil vonbrigði.

„Samkomulagi var náð af hálfu beggja aðila og var sanngjarnt og raunhæft. Við erum svekktir með þessa niðurstöðu og ætlum að skoða kosti okkar í stöðunni,“ sagði í yfirlýsingunni.

Samkomulagið fólst í því að Uber myndi greiða bílstjórunum, sem starfa í Kaliforníu og Massachusetts fylkjum, 84 milljónir dollara í upphafi og 16 milljónir til viðbótar ef fyrirtækið færi á markað og myndi 1,5-faldast í verði frá því í desember 2015 á innan við ári.

Uber var tilbúið að ganga svo langt vegna þess að fyrirtækið taldi mikilvægt að bílstjórar yrðu áfram verktakar en ekki starfsmenn.