Leigubíla- og heimsendingarfyrirtækið Uber mun von bráðar bjóða upp á fjölbreyttari samgöngumáta í Bretlandi. Þetta kemur fram í grein hjá CNBC , en fyrirtækið tilkynnti þetta í gær. Viðskiptavinir Uber í Bretlandi geta þá pantað sér ferð með flugvél, lest, rútu og jafnvel pantað bílaleigubíl, í gegnum Uber appið.

Uber stefnir á að víkka hina auknu þjónustu til annarra landa, ef vel gengur. Farveitan mun ekki sinna ferðunum sjálf, eins og í tilviki leigubílaferða. Hún mun hins vegar gera notendum kleift að bóka ferðirnar í gegnum Uber, í kjölfar innleiðingar miðasölukerfa.

Jamie Heywood, forstöðumaður Uber í Bretlandi, sagði í tilkynningu að farveitan vonist eftir því að bjóða ferðalöngum upp á allt sem þeim þarfnast í ferðalögum sínum. „Við höfum nú þegar gert viðskiptavinum okkar kleift að bóka bílferðir, hjóla, báta og rafhlaupahjól í gegnum appið. Það er rökrétt næsta skref að bæta við lestarferðum og öðrum vinsælum fararkostum.“

Heywood bætir við að í framtíðinni stefni farveitan á að gera fólki kleift að kaupa lestarmiða hjá Eurostar í gegnum Uber appið.

Dara Khosrowshahi, forstjóri Uber, lýsti því yfir árið 2018 að hann vildi bæta fleiri fararmátum við Uber appið. Hann sagði, í samtali við Financial Times nú á dögunum, að Covid-19 faraldurinn hefði frestað þeim áformum.

Auk þess að fjölga samgöngukostum stefnir Uber á að gera notendum kleift að bóka hótelgistingu, ekki seinna en á næsta ári.