Uber Technologies Inc. er eitt af óskabörnum deilihagkerfisins. Fyrirtækið hefur náð að umbylta hefðbundnum leigubílaiðnaði og hefur náð útbreiðslu í 527 borgum í ríflega 77 löndum. Fyrirtækið hefur þó ekki einungis áhuga á götum stórborga, en eins og nýleg 98 blaðsíðna skýrsla gefur til kynna, horfa Uber-menn einnig til himna.

Í þessari umræddu skýrslu, hugleiða forsvarsmenn fyrirtækisins um tækifæri sem felast í flugi innan borga. Ein hugmynd væri að smíða svokallaðar VTOL vélar (e.aircraft of vertical takeoff and landing), sem eru einhverskonar fljúgandi bílar sem geta lent eins og þyrlur.

Í skýrslunni kemur fram að fyrirtækið sjái fyrir sér að tækin geti orðið hagstæðari en bílar og jafnvel ódýrari. Aftur á móti myndi félagið ekki vilja framleiða vélarnar, heldur er fjallað um það hvernig hægt væri að starfa með bíla- og flugvélaframleiðendum, en einnig hinu opinbera.

Travis Kalanick, forstjóri og meðstofnandi Uber, er með þessum hugmyndum að hefja hálfgert stríð við Larry Page, forstjóra og meðstofnanda Google. Page hefur sjálfur fjárfest í fyrirtækjum sem hanna sambærileg flugtæki og Uber skýrlsan fjallar um.

Forsvarsmenn Uber gera sér grein fyrir því hversu stórt verkefnið er og telja það geta kostað talsverða peninga og tíma. Aftur á móti sjá þeir tækin geta hafið flug á næstu tíu árum.