Leigubílaþjónustan Uber hefur verið kærð til sérstaks gerðardóms um kjaradeilur og atvinnuréttindamál í London. Saka tveir bílstjórar á vegum fyrirtækisins það um að brjóta lög með því að veita þeim ekki veikinda og frídagagreiðslur.

Sjálfstæðir atvinnurekendur eða starfsmenn

Snýst málareksturinn um hvort bílstjórar á vegum fyrirtækisins teljist vera að vinna fyrir Uber eða eins og Uber heldur fram, sjálfstæðir atvinnurekendur. Fylgja mismunandi réttindi og skyldur hvorri skilgreiningu fyrir sig, því starfsmenn í vinnu hjá fyrirtæki eiga að hafa rétt á að fá greitt lágmarkslaun og fá launaða frídaga.

Uber hefur alltaf skilgreint bílstjóra sína sem sjálfstæða atvinnurekendur og hafi þannig rétt á að velja hve mikið og oft þeir vilji vinna.

Snýst um stjórn Uber yfir bílstjórum

„Málið sem hér er um að ræða snýst ekki um að taka í burtu þennan sveigjanleika, heldur þá miklu stjórn sem Uber hefur yfir sýnum bílstjórnum,“ segir Justin Bowden, aðalritari GMB verkalýðsfélagsins sem stendur að málaferlunum.

„Annað hvort gildir vinnulöggjöfin og fólk þarf að fylgja henni eða ekki.“

Víðtækar afleiðingar dómsniðurstöðu

Niðurstaða dómstólsins getur haft víðtækar afleiðingar í Bretlandi og annars staðar, en í því er jafnframt tekist á um rétt Uber til að draga af greiðslum bílstjóra vegna kvartana viðskiptavina.

Uber er app eða forrit í snjallsímum þar sem viðskiptavinir geta beðið um að vera sóttir af bílstjórum sem bjóða þjónustu sína í gegnum appið. Fyrirtækið hefur vaxið gríðarlega hratt út um allan heim, og er metið á 62,5 milljarða Bandaríkjadala. En það hefur jafnframt þurft að takast á við mótmæli, bönn og takmarkanir víða um heim.