*

fimmtudagur, 1. október 2020
Erlent 13. ágúst 2020 11:32

Uber hótar að hætta rekstri í Kaliforníu

Dómstóll í Kaliforníu hefur skipað Uber og Lyft að skilgreina ökumenn sína sem starfsmenn fremur en verktaka.

Ritstjórn
epa

Farveiturnar Uber og Lyft hafa hótað að hætta starfsemi í Kaliforníu ef þau verða neydd til að skilgreina ökumenn sína sem starfsmenn í stað verktaka en þetta kemur fram í frétt San Fransisco Chronicle

Dómstóll í Kaliforníu kvað upp dóminn á mánudaginn eftir lögsókn ríkissaksóknara fylkisins en bæði fyrirtækin hyggjast áfrýja dómnum. Breytingin myndi hafa í för með sér að fyrirtækin þyrftu að greiða fyrir ýmis hlunnindi, líkt og veikindalaun. Farveiturnar sögðu starfsemina sína vera ógerlega í ríkinu ef breytingin verður innleidd.

Dara Khosrowshahi, forstjóri sagði í viðtali við MSNBC að fyrirtækið myndi líklega tímabundið stöðva starfsemi sína í Kaliforníu þar til í nóvember ef lögin verða innleidd. John Zimmer, forstjóri Lyft, lét sambærileg ummæli falla á símafundi með hluthöfum. 

Í nóvember munu íbúar Kaliforníuríkis kjósa um svokallaða tillögu 22 til ríkislaga, sem mun heimila fyrirtækjum á ný að ráða verktaka í hlutastörf í gegnum smáforritin Uber og Lyft og önnur álíka öpp. Fyrirtækin hafa lagt meira en 100 milljón Bandaríkjadala til kosningabaráttunnar um málið.

Stikkorð: Uber Lyft