Leigubílafyrirtækið Uber leitar fleiri leiða til þess að breikka starfsemi sína. Uber hefur nú stofnað snjallforritið, Uber Works. Þetta kemur fram á vef Financial Times.

Tilgangur forritsins er að tengja saman vinnufólk, svo sem afgreiðslufólk og kokka, við fyrirtæki sem leitar eftir starfskrafti. Með þessari þjónustu brúar Uber bilið á milli fyrirtækja og vinnufólks. Umfang atvinnuumsókna ætti að minnka þar sem fólk þarf einungis að senda inn eina atvinnuumsókn. Að sama skapi auðveldar þjónustan fyrirtækjum að leita að starfskrafti.

Samkvæmt upplýsingum frá Deloitte eru mun fleiri Bandaríkjamenn að starfa sjálfstætt en þjónustan miðar einmitt að miklu leiti til þeirra. Áætlað er að um það bil 42 milljónir manna muni starfa utan hefðbundins fyrirtækis á næsta ári sem væri þreföldun miðað við árið 2017.

Uber hefur nú þegar náð samning við fyrirtækið TrueBlue en með þessari innkomu væri Uber farið í beina samkeppni við fyrirtæki eins og Wonolo.