Farveitan Uber hyggst segja upp 3.000 manns til viðbótar við þau 3.700 sem sagt var upp í byrjun mánaðar, og mun með því hafa sagt upp fjórðungi vinnuafls á sínum snærum síðustu vikur. Þá er til skoðunar að loka yfir 40 skrifstofum og deildum á borð við gervigreindarrannsóknir. BBC segir frá .

Að sögn forstjórans eru hagræðingaraðgerðirnar nauðsynlegar til að tryggja framtíð félagsins, hvers rekstur hefur verið nokkuð stormasamur frá skráningu þess á markað fyrir rétt rúmu ári síðan, en bréf félagsins eru nú 16% lægri en við skráningu og hafa ekki náð upp í skráningargengið síðan í lok síðasta sumars.

Farveitan tapaði 8,5 milljörðum Bandaríkjadala á síðasta ári, en hafði áformað að geta orðið fjárhagslega sjálfbær og farið að skila hagnaði undir lok þessa árs. Ólíklegt verður hinsvegar að teljast að þau áform standist eftir að kórónufaraldurinn skall á heimsbyggðinni af fullum þunga.

Bílferðum á vegum fyrirtækisins fækkaði um 80% í apríl meðan á ströngustu útgöngubönnum og öðrum hömlum stóð í Norður-Ameríku, og stóraukin umsvif Uber Eats matarheimsendingarþjónustunnar hafa ekki dugað til að ná afkomunni upp fyrir núllið.