Sérfræðingur UBS bankans, Geraud Charpin sagði í fréttabréfi til viðskiptavina að afskriftir myndu vera minnst 600 milljarðar bandaríkjadala eða nærri 39 þúsund milljarðar íslenskra króna vegna undirmálalánamarkaða undanfarin misseri.

„Biðstaða á mörkuðum er eins og krabbamein og því fyrr sem eitthvað er aðhafst því auðveldara verður að lækna meinið,“ sagði hann í tilkynningu sinni.

Þá sagði hann afskriftir American International Grou, stærsta tryggingafélags Bandaríkjanna upp á 5,3 milljarða dala í gær sýna að það væru ekki bara bankar- og fjármálafyrirtæki sem eigi í hættu að tapa fé.

Sérfræðingur frá Deutsche Bank, Michael Mayo sagði í gær að búast megi við fleiri afskriftum auk þess sem gera megi ráð fyrir lækkandi hagnaði á fyrsta ársfjórðung þessa árs.

Fjármálageirinn lækkaði um 4% í S&P 500 vísitölunni í gær og hefur því lækkað um 11% í febrúar. Það er mesta lækkun á einum mánuði frá því í september 2002.