UBS, sá evrópski banki sem hrunið á markaðnum með bandarísk undirmálslán hefur bitnað hvað harðast á, þurfti að afskrifa 19 milljarða Bandaríkjadala á fyrsta fjórðungi.

Tap bankans á fjórðunginum var 12 milljarðar dala og hefur stjórn bankans farið þess fram við hluthafa að eiginfjárstaðan verði styrkt um ríflega 15 milljarða dala. Er þetta í annað sinn á tveim mánuðum sem bankinn þarf að styrkja eiginfjárstöðuna.

Það eru illseljanlegir fasteignatryggðir fjármálagjörningar í bókum UBS sem valda afskriftunum en forráðamenn bankans hyggjast færa þær eignir í sérstakt félag. Bankinn hefur áður orðið fyrir barðinu á verðþróun slíkra eigna og ekki er langt síðan að hann þurfti að sækja sér um 13 milljarða dala til fjárfesta í Singapúr og Miðausturlöndum.

Jafnframt hefur Marcel Ospel, stjórnarformaður bankans, lýst því yfir að hann sækist ekki eftir endurkjöri. Fram kemur í frétt Financial Times að Ospel hafi verið harðlega gagnrýndur fyrir að sjá ekki fyrir hvaða afleiðingar miklar stöðutökur í fasteignatryggðum fjármálagjörningum kynnu að hafa og að stjórn bankans þykir ekki hafa tekist á við vandan með fullnægjandi hætti.

Peter Kurer mun taka við af Ospel. Financial Times segir hann best þekktan fyrir þátt sinn í hruni svissneska ríkisflugfélagsins Swissair, og segir blaðið ráðninguna til marks um það að bankanum hafi ekki tekist að finna hentugan mann úr bankakerfinu.