Svissneski bankinn UBS ætlar að segja upp um 5 þúsund manns á næstu vikum, þá helst stjórnendum og millistjórnendum að því er svissneskir fjölmiðlar greina frá í dag.

Fram kemur í vikublaðinu SonntagsZeitung að minnst 2.500 manns verði sagt upp á eignarstýringasviði bankans en þar starfa um 50 þúsund af 77 þúsund starfsmönnum bankans.

Uppsagnirnar koma í kjölfar yfirlýsinga banans um að til standi að endurskipuleggja rekstur hans í ljósi breyttra aðstæðna og minnkandi hagnaðar bankans. Í yfirlýsingu bankans var þó einungis sagt að um 6 – 800 manns yrði sagt upp störfum en SonntagsZeitung telur sig hafa öruggar heimildir fyrir því að um 5 þúsund manns verði sagt upp störfum.

Bankinn tilkynnti þó um uppsagnir í febrúar sem enn hafa ekki tekið gildi en þá var áætlað að starfsmenn bankans yrðu um 75 þúsund um mitt árið.