Svissneski bankinn UBS varaði í dag við frekari stórfelldum uppsögnum á sviði fjárfestingabankastarfsemi. Þetta kom fram á aðalfundi bankans sem haldin var í Basel í dag.

Marcel Rohner, forstjóri UBS, sagði að nánari útlistun á þessum áformum bankans yrðu kynnt í næsta mánuði.

Í frétt Financial Times segir að þúsundum manns gæti verið sagt upp störfum. Líkleg þykir að áformin verði kynnt á sama tíma og uppgjör bankans fyrir fyrsta ársfjórðung verður birt 6. maí næstkomandi.

Uppsagnirnar kæmu þá til viðbótar þeim 1500 manns sem þegar hefur verið sagt upp störfum á sviði fjárfestingabankastarfsemi. Á meðal evrópskra banka er UBS stærsta fórnarlamb hrunsins á bandarískum undirmálslánamarkaði og hefur bankinn af þeim sökum þurft að afskrifa hjá sér um 38 milljarða franka.

Peter Kurer var kjörin nýr stjórnarformaður UBS með 87% greiddra atkvæða, þrátt fyrir mikla gagnrýni sumra hluthafa í aðdraganda fundarins að hinn 58 ára lögfræðingur væri óhæfur til að gegna starfinu.

Einhverjir í hópi þeirra fjögur þúsund hluthafa sem mættir voru á fundinn létu í ljós vanþóknun sína á kjöri Kurer með því að æpa ókvæðisorð í garð hans.

Fram kemur í frétt Dow Jones-fréttaveitunnar að sumir hluthafar hafi á köflum verið óstýrilátir og látið fjandsamlega gagnvart stjórn bankans.