Svissneski bankinn UBS hefur afhent bandarískum yfirvöldum nöfn um 70 viðskiptavina úr einkabankaþjónustu bankans.

Bandarísk skattayfirvöld rannsaka nú einkabankaþjónustu UBS í Bandaríkjunum en samkvæmt frétt Reuters liggur grunur á að bankinn hafi aðstoðað bandaríska þegna við að skjóta fjármagni undan skatti.

Það sem vekur óneitanlega athygli er að aðgerðir bankans nú kunna að grafa undan hinni frægu svissnesku bankaleynd að því er fram kemur í frétt Washington Post sem greinir frá málinu í dag.

Í frétt Washington Post kemur fram bankinn hafi þó ekki látið af hendi nöfn viðskiptavina með viðskipti í Sviss, heldur aðeins í Bandaríkjunum.

Rannsókn bandarískra skattayfirvalda nær aftur til ársins 2000.

Svissnesk yfirvöld eru undir miklum þrýstingi þessa dagana um að láta af hendi upplýsingar um viðskiptavini þarlendra banka. Að sögn Reuters fréttastofunnar þrýsta nágrannaríki Sviss á um að fá upplýsingar um landa sína sem eiga reikninga í Sviss.