Svissneski bankinn UBS mun á þessu ári greiða greiða helming hagnaðar út til hluthafa. Þetta kom fram í viðtali Financial Times við forstjóra UBS, Sergio Ermotti, um helgina. Bendir margt til þess að UBS muni auka arðgreiðsluhlutfallið enn meira á næstu árum. Er bankinn því kominn í hóp fyrirtækja sem greiða meirihluta hagnaðar síns út til hluthafa á sama tíma og mörg fjármálafyrirtæki eiga enn í rekstrarerfiðleikum eftir alþjóðlegu fjármálakreppuna. Námu arðgreiðslur UBS á síðasta ári um þriðjungi hagnaðar bankans.

UBS hefur stefnt á 50% arðgreiðsluhlutfall á síðustu árum og stóð til að greiða út um helming hagnaðar bankans strax árið 2012. Í stað hárra arðgreiðslna þurfti bankinn að grípa til niðurskurðaraðgerða það árið sökum aukins taps á fjárfestingarbankastarfsemi bankans árið 2011 auk fjárhagslegs áfalls vegna ólöglegra viðskipta eins starfsmanns UBS í september 2011, sem kostaði bankann yfir 2 milljarða dollara. Haldið var aftur af arðgreiðslum í kjölfarið.

Arðgreiðslurnar svipaðar og á Norðurlöndum

UBS hefur stefnt á 13% eiginfjárhlutfall til að framfylgja núverandi arðgreiðslustefnu, en bankinn var rétt undir markmiði í fyrra. Greiningaraðilar vestanhafs hafa spáð því að UBS greiði allt að 100% af hagnaði sínum til hluthafa á næsta ári eða árið 2016. Telja þeir að rekstur UBS á næstu árum muni skapa mun meira laust fé en bankinn geti fjárfest skynsamlega, og því liggi fyrir að hagnaðurinn verði greiddur út.

Þá hefur arðgreiðslustefnu UBS verið líkt við stefnu norrænu bankanna undanfarið, en bankar á borð við Swedbank og Nordea hafa greitt, eða stefna á að greiða, um 75% af hagnaði sínum til hluthafa. Er arðgreiðslustefna norrænu bankanna háð háu eiginfjárhlutfall og hafa stjórnendur lagt áherslu á stöðugan rekstur fremur en öran vöxt.