Svissneski bankinn UBS áætlar að segja upp allt að 10 þúsund manns á næstu misserum samhliða því að minnka verulega umsvif sín á fjárfestingabankasviði.

Breska blaðið Financial Times og fréttaveitan Reuters hafa fjallað um málið um helgina en talsmenn bankans hafa engar upplýsingar viljað gefa opinberlega. Ef af verður þýðir það að um 16% allra starfsmanna bankans verður sagt upp.

Um 6.500 manns starfa fyrir UBS í Lundúnum en BBC greinir frá því að töluvert af starfsmönnum bankans þar verði sagt upp störfum. Bankinn hefur svo sem ekki farið í grafgötur með það að stefna bankans sé að minnka fjárfestingabankastarfsemi og auka hefðbundna bankaþjónustu, eignastýringu og ráðgjöf.

Í frétt sinni um uppsagnirnar rifjar BBC upp að tap UBS á árunum 2007 – 2009 nam um 39 milljörðum svissneskra franka, eða því sem samsvarar um 42 milljörðum Bandaríkjadala. Bankinn þurfti að lokum á neyðarláni að halda frá svissneskum stjórnvöldum.