Svissneski bankinn UBS íhugar nú að segja upp allt að 4.500 manns til viðbótar við þá 9.000 sem þegar hefur verið sagt upp hjá bankanum að því er svissneska blaðið SonntagsZeitung greinir frá í dag.

SonntagsZeitung er þó ekki eina svissneska blaðið sem segir frá málinu í dag en að sögn Reuters fréttastofunnar eru fleiri fjölmiðlar í Sviss sem greina frá því í dag að bankinn kunni að segja upp fólki og eru tölur nefndar á bilinu 3 – 4.000.

UBS stendur nú í því að endurskipuleggja starfssemi sína eftir mikið tap sökum lausafjárkrísunnar. Að sögn Reuters hefur bankinn afskrifað fé mest allra banka í Evrópu, eða um 3,5 milljarða Bandaríkjadali.

Eins og fyrr segir hefur bankinn þegar sagt upp 9.000 manns á þessu ári, mest á fjárfestingasviði en nú starfa um 80.000 þúsund mans hjá bankanum  víðsvegar um heiminn.

Talsmaður UBS vildi ekki staðfesta fréttir um frekari uppsagnir og sagði að aðeins væri um orðróm að ræða. Hún ítrekaði þó að bankinn væri enn að hagræða í rekstri sínum.