Kaspar Villiger, stjórnarformaður svissneska bankans UBS, segir að fyrrum stjórnendur bankans verði ekki sóttir til saka af hálfu bankans.

Á blaðamannafundi sagði Villiger að slík málaferli myndu veikja stöðu bankans í málaferlum bankans í Bandaríkjunum. Bandarísk yfirvöld kærðu bankann fyrir skattsvik sem meðal annars snúa að því að aðstoða auðuga Bandaríkjamenn við að skjóta eignum undan skatti.

Á síðasta ári greiddi UBS sekt að andvirði 780 milljóna dala til þess að ná sátt. Að auki neyddist bankinn til þess að láta bandarísk yfirvöld fá gögn um 4.450 leynilega bankareikninga.