Laun stjórnarformanns svissneska bankans UBS, Marcel Ospel, voru lækkuð um 90% eftir að bankinn, sá stærsti í Evrópu þegar horft er til eigna, tilkynnti um mettap á rekstri bankans í fyrra.

Fram kemur í ársskýrslu UBS, sem birtist í gær, að laun Ospels árið 2007 hafi numið 2,57 milljónum svissneskra franka, borið saman við 26,6 milljónir franka árið þar á undan.

Ospel, sem hafði áður afþakkað bónusgreiðslur fyrir árið 2007, hefur verið undir miklum þrýstingi frá hluthöfum vegna slæmrar afkomu bankans í fyrra. Á meðal evrópskra banka er UBS stærsta fórnarlamb hrunsins á bandarískum undirmálslánamarkaði og hefur bankinn af þeim sökum þurft að afskrifa hjá sér um 18 milljarða franka.