Svissneski bankinn UBS hefur nú ákveðið að hætta að veita bandarískum viðskiptavínum sínum einkabankaþjónustu í Sviss en bankinn hefur legið undir ámælum og rannsóknum bandaríska skattayfirvalda.

Síðastliðið sumar óskuðu bandarísk yfirvöld eftir fjármálaupplýsingum frá UBS vegna bandarískra ríkisþegna en talið var að bankinn væri að hjálpa einstaklingum að flytja fjármagn sitt frá Bandaríkjunum yfir í hina frægu svissnesku bankaleynd.

Þannig hafa yfirvöld áætlað að bankinn hafi hjálpað bandarískum þegnum að flytja um 18 milljarða Bandaríkjadali og forðast þannig skattgreiðslur.

Talsmaður UBS segir þó bankinn hafi fyrir nokkru ákveðið að loka fyrir þjónustu sína. Þannig hafi bankinn í nóvember 2007 byrjað að loka reikningum bandarískra þegna með innistöðu undir 45 þúsund dölum (50 þús. svissneskum frönkum).

Hún tekur fram að ákvörðun bankans tengist ekki rannsókn bandarískra skattayfirvalda en að eigin sögn þarf bankinn að láta loka um 19 þúsund reikningum.