Saxo Bank hefur hætt viðskiptum með íslensku krónuna en eins og áður hefur komið fram var ákvörðun tekin um það í gær og hefur Saxo Bank því ekki átt viðskipti með ísenskar krónur í dag.

Sömu sögu er að segja af mörgum öðrum dönskum bönkum.

Ástæðan er sú að markaðurinn með framvirka samninga í íslenskum krónum er að miklu leyti orðinn óvirkur þar sem mótaðilar dönsku bankanna sem eru stórir bankar á borð UBS, Royal Bank of Scotland hafa, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins, sjálfir hætta að eiga viðskipti með íslenskar krónur þar sem þeir hafa ekki lengur aðgang að lánalínum til þess að eiga í viðskiptum með krónur við íslensku bankana.

Þannig munu t.d. hvorki UBS né Royal Bank of Scotland hafa átt viðskipti með krónur í dag.

„Já, við ákvaðum þetta í gær vegna þess að margir af stóru bönkunum á borð við UBS sem við höfum átt viðskipti við ákváðu að hætta viðskiptum með íslensku krónuna og við getum sjálfir ekki átt í viðskiptum beint við íslensku bankana. En ég vonast til þess að við getum átt viðskipti með íslenskar krónur eins fljótt og hægt er, " sagði Klaus Nielsen hjá Saxobank í samtali við Viðskiptablaðið en sagðist aðspurður ekki geta sagt til um hvenær viðskipti með íslensku krónuna gætu hafist aftur.