Svissneski bankinn UBS mun að öllum líkindum segja upp allt að 8.000 manns vegna mikilla afskrifta og taps á fyrsta ársfjórðung þessa árs. Þar af er áætlað að bankinn muni segja upp um 2.500 til 3.000 manns á fjárfestingasviði bankans.

Uppgjör bankans verður kynnt á morgun en Bloomberg fréttaveitan greinir frá því að tap bankans nemi um 12 milljörðum svissneskra franka eða því sem nemur um 874 milljörðum íslenskra króna.

„UBS mun skera niður á fjárfestingasviði,“ segir Dirk Becker, greiningaraðili hjá Landsbanki Kepler í Frankfurt og mælir með því að fólk losi sig við hlutabréf í félaginu.

Þá segir Becker það „raunhæft“ að bankinn segi upp um 10% starfsmanna en hjá bankanum starfa nú um 83.000 manns. UBS sagði upp 1.500 manns undir lok síðasta árs.

„Bankinn þarf að endurheimta traust fjárfesta,“ segir Peter Thorne greiningaraðili hjá Helvea í London. „Það kæmi mér ekki á óvart þótt bankinn segði upp meira en 8 þúsund manns.“

UBS hefur nú afskrifað um 38 milljarða dali eða um 2.911 milljarða íslenskra króna síðustu 3 ársfjórðunga að sögn Bloomberg. Þar nýtur bankinn þess vafasama heiðurs að hafa afskrifað næst mest allra banka á vesturlöndum en bandaríski bankinn Citigroup hefur afskrifað um 41 milljarð dala eða um 3.100 milljarða íslenskra króna.

Þá hefur bankinn lækkað um 50% milli ára á hlutabréfamörkuðum.