Svissneski bankinn UBS tilkynnti í morgun að tap bankans á fjórða ársfjórðungi síðasta árs hefði numið 12,45 milljörðum svissneskra franka, borið saman við hagnað upp á 3,4 milljarða franka á sama tíma árið 2006.

Á meðal evrópskra banka er UBS stærsta fórnarlamb bandarísku undirmálslánakrísunnar. Bankinn staðfesti í morgun að afskriftir á fjórða ársfjórðungi hefðu numið 13,7 milljarða franka. Áður hafði bankinn fært til bókar tap upp á ríflega 5 milljarða franka vegna taps á fjármálagjörningum með tengsl við undirmálslánamarkaðinn. Þetta er í samræmi við afkomuviðvörun sem UBS sendi frá sér í lok síðasta mánaðar.

Marcel Rohner, forstjóri UBS, sagði að síðasta ár hefði verið hið erfiðasta í sögu bankans, en samtals nam tap bankans á öllu árinu 4,38 milljarðar franka, samanborið við 12,26 milljarða hagnað árið þar á undan. Rohner sagði að fjárfestar ættu að undirbúa sig fyrir “annað erfitt ár”, enda gæfi rekstarumhverfið á þessu ári ekki tilefni til bjartsýni.

Í tilkynningu UBS er jafnframt varað við því að bankinn þurfi að ráðast í frekari uppsagnir en nú þegar hafa verið boðaðar, en í lok síðasta árs greindi UBS frá því að 1500 starfsmönnum yrði sagt upp.

Gengi hlutabréfa í UBS hafa lækkað um 22% það sem af er þessu ári.