Eftir að hafa verið undir töluverðum þrýstingi hluthafa ákvað svissneski bankinn UBS, einn stærsti banki Evrópu, í gær að breyta reglum um kosningu í stjórn bankans. Samkvæmt hinum nýju reglum þurfa sitjandi stjórnarmenn að vera endurkjörnir í stjórn á hverju ári, en ekki á þriggja ára fresti eins og fyrri reglur bankans kváðu um. Breytingin er gerð í því augnamiði að veita hluthöfum meiri sveigjanleika til að gera breytingar á yfirstjórn bankans, en stjórnendur UBS hafa legið undir verulegri gagnrýni af hálfu hluthafa eftir að bankinn tapaði 12,45 milljörðum svissneskra franka á síðasta ársfjórðungi.

Á meðal evrópskra banka er UBS stærsta fórnarlamb undirmálslánakrísunnar vestanhafs og hefur bankinn þurft að afskrifa hjá sér um 18 milljarða franka í tengslum við hrunið á undirmálslánamarkaðnum. Hluthafar UBS munu greiða atkvæði um endurkjör stjónarformannsins Marcel Ospel, ásamt tveimur öðrum stjórnarmönnum, á aðalfundi bankans 23. apríl næstkomandi, að því er fram kemur í tilkynningu sem UBS sendi frá sér. Sumir hluthafar bankans höfðu hins vegar vonast eftir því að stjórnin myndi tilkynna um eftirmann Ospel í embætti stjórnarformanns. Bloomberg- fréttaveitan hefur eftir Vinzenz Mathys, hluthafa í UBS sem hefur jafnframt kallað eftir sérstakri endurskoðun á áhættustjórnarferlum bankans, að stjórninni skorti traust hluthafa og það sé ekki síst tengt nafni Ospel. „Við erum ósátt vegna þess að UBS hefði getað útnefnt nýja stjórnarmenn“, segir Mathys. Fjármálaskýrendur telja á hinn bóginn líklegast að Ospel nái endurkjöri sem stjórnarformaður til eins árs, enda þótt hann muni væntanlega ekki fá mjög góða kosningu. Hlutabréfamarkaðir brugðust vel við fréttum af fyrirhuguðum umbótum á stjórn bankans og hækkuðu bréf UBS um ríflega 2% í verði. Gengi bréfa í UBS hefur hins vegar lækkað um meira en 30% það sem af er þessu ári.