Svissneski bankinn UBS skilaði tapi á fjórða ársfjórðungi síðasta árs vegna einskiptisgreiðslu til skattayfirvalda í kjölfar breytinga á skattalögum í Bandaríkjunum að því er kemur fram á vef The Wall Street Journal .

Bankinn tapaði 2,22 milljörðum svissneskra franka eða jafnvirðis tæplega 239 milljarða íslenskra króna milli október og desember en á sama tímabili í fyrra hagnaðist hann um 636 milljónir franka. Greinendur höfðu búist við að tap bankans yrði aðeins minna eða um 2,15 milljarðar franka en afskriftir á skattafrádrætti í kjölfar skattbreytinganna kostuðu bankann 2,9 milljarða franka.

Bankinn tilkynnti jafnframt í tengslum við uppgjörið að hann hyggðist kaupa eigin bréf í fyrsta skipti síðan í fjármálakreppunni, greiða meiri arð og gera stórar breytingar á eignastýringarsviði sínu. Eignastýringarsvið bankans gegnir lykilhlutverki í rekstri hans en í heildina stýrir bankinn um 2.300 milljörðum dala fyrir viðskiptavini sína.