Belgísk yfirvöld hafa hafið rannsókn á svissneska bankanum UBS vegna gruns um peningaþvætti og umfangsmikil skattsvik í Belgíu.

Í frétt BBC er haft eftir saksóknara að bankinn liggi undir grun um að hafa með beinum hætti - þ.e. ekki í gegnum belgískt dótturfélag sitt - nálgast belgíska viðskiptavini og reynt að sannfæra þá um að svíkja undan skatti.

UBS segir í yfirlýsingu að ásakanirnar eigi ekki við rök að styðjast og að bankinn muni grípa til varna.

Í yfirlýsingu saksóknara segir að ábending og hjálp frá frönskum yfirvöldum hafi orðið til þess að rannsóknin hófst í Belgíu, en í Frakklandi hefur UBS sætt rannsókn yfirvalda vegna gruns um að bankinn hafi verið að hvetja franska ríkisborgara til að opna reikninga í Sviss til að komast hjá skattgreiðslum í Frakklandi.

Bandarísk yfirvöld hafa einnig verið að skoða hvort UBS hafi aðstoðað þarlenda viðskiptavini sína við að fela eignir sínar frá bandarískum skattayfirvöldum.