Starfsemi svissneska bankans UBS í Frakklandi er til rannsóknar hjá opinberum aðilum vegna ásakana um að starfsmenn bankans hafi aðstoðað franska viðskiptavini við skattaundanskot. Frönsk yfirvöld hafa beitt aukinni hörku gegn bönkunum en rannsókn á UBS hófst fyrst í apríl á síðasta ári.

Í frétt Financial Times um málið segir að húsleitir hafi farið fram á skrifstofum UBS í París og víðar í Frakklandi. Formlega hefur verið tilkynnt um rannsókn á þremur framkvæmdastjórum bankans. Formleg rannsókn á þeim þykir benda til að sönnunargögn sýni saknæmt atferli, og líkur eru taldar miklar á að gefnar verði út ákærur.