Greiningaraðilar hafa undanfarið verið afar svartsýnir í garð Evrunnar. Eignastýringarsvið UBS virðist þó vera á annari skoðun, því þeir hvetja viðskiptavini sína nú til þess að kaupa Evrur.

Greiningaraðilar UBS telja Evruna einfaldlega undirverðlagða gagnvart Bandaríkjadollar. UBS spáir því allt að 7% styrkingu á næstu sex mánuðum.

Evran hefur styrkst um 2% gagnvart dollar frá áramótum og hangir nú í um 1,07 dölum. Undanfarin þrjú ár hefur gengið þó veikst talsvert, eða um allt að 20%, ef miðað er við Bandaríkjadollar.

Greiningaraðilar eignastýringarsviðsins spá því að gengi evrunnar muni því ná 1,15 dölum á árinu, en telja ekki ólíklegt að hún geti náð 1,25 dölum.